IceFemIn var með málstofu á Womens Leaders Global Forum miðvikudaginn 20. nóvember frá 10:40 – 12. Málsstofan fór fram á ensku og bar tiltilinn: The Icelandic Story – How Women Changed the Political Landscape. Guðrún Agnarsdóttir fv. þingkona Kvennalistans var fundarstjóri og í panel voru: Kristín Ástgeirsdóttir, f.v. framkvæmdastýra Jafnréttisstofu og f.v. þingkona Kvennalistans, Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélagsins og mikilvirk í réttindabaráttu kvenna af erlendum
uppruna, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, aðalhagfræðingur BSRB og fv. þingkona, svo voru tvær dætur Kvennalistans (þ.e. mæður þeirra voru virkar Kvennalistakonur) þær Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur, formaður félags um nýja stjórnarskrá og Jóna Þórey Pétursdóttir, laganemi, formaður stúdentaráðs.

Í upphafi héldu þær stutta tölu þar sem þær svöruðu spurningunni hvað getum við lært af fortíðinni til að taka með okkur í baráttunni fram á veginn.  Í framhaldinu urðu fjörugar og góðar umræður með þáttöku kvenna úr sal sem voru rúmlega 30 frá mörgum löndum s.s. Danmörku, Þýskalandi, Óman, Japan, Indlandi, Niger,  Bandaríkjunum og fleiri löndum. Spurðu konurnar m.a. um daglegt líf íslenskra kvenna, hvernig hefði gengið að deila heimilisstörfunum, dösku konurnar vildu vita hvernig hefði gengið að koma á fæðingarorlofi fyrir karla, af hverju hætti Kvennalistinn o.fl. o.fl. Í lokin voru svo sýndar valdar myndir frá aðgerðum Kvennalistakvenna s.s. fegurðardrottningar í borgarstjórn, innkaup á efnum í grjónagraut og neita svo að greiða nema 65% af því sem vörurnar kostuðu en laun kvenna voru þá að meðaltali 65% af launum karla. Segja má að málstofan hafi sýnt mikilvægi þess að konur deili reynslu sinni í kvennabaráttunni þvert á lönd og þjóðir og mismunandi menningarheima. Við lærum hver af annarri, nýjar hugmyndir fæðast og baráttuandinn er endurnærður.