Women Political Leaders 2020

Í þriðja sinn tók IceFemIn þátt í ráðstefnu Women Political Leaders sem fram fór að mestu leyti rafrænt í Reykjavík 9. -11. nóvember 2020. Að þessu sinni var yfirskriftin : Women´s Empowerment is acutely important eða Valdefling kvenna er bráðnauðsynleg núna. Með þessum titli er vísað til ástands heimsmála þar sem harðsvíraðar og íhaldssamar ríkisstjórnir efna til átaka, snúast gegn lýðræði, eða beita sér gegn réttindum kvenna. Gömul skrímsli feðraveldisins hafa risið upp á afturlappirnar. Þá hefur ástandið í kjölfar Covid-19 stóraukið álag á konur, ekki síst þær sem vinna að heilbrigðismálum. Ofbeldi gegn konum hefur stigmagnast í kjölfar pestarinnar um allan heim auk þess að leiða til atvinnuleysis og örbirgðar kvenna. 

         Þátttakendur voru Joanna Markincowska frá Póllandi sem búið hefur um árabil á Íslandi, Eglantina Gjermeni þingkona frá Albaníu, Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og fundarstýran Kristín Ástgeirsdóttir frá IceFemIn. Vegna tæknilegra örðugleika tókst ekki að ná sambandi við Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur frá IceFemIn og Lena Nielsen frá Noregi. Inngangur sem Sigríður Dúna ætlaði að flytja er birtur hér á eftir

         Í umræðunum kom fram hve pólsk stjórnvöld ganga hart fram í að banna þungunarrof og eru konum og réttindum þeirra andsnúin. Konur hafa snúist til varnar með miklum móttmælum. Í Albaníu og reyndar S-Evrópu gengur alltof hægt að bæta stöðu kvenna. Sigríður Björk sagði frá aðferðum og árangri í baráttunni við kynbundið ofbeldi hér á landi. 

Það var niðurstaðan að mjög brýnt sé að stórauka hlut kvenna í stjórnmálum, bæði í gegnum öflug félagasamtök og með því að komast á þing og í sveitarstjórnir, þ.e. konur sem beita sér fyrir réttindum kvenna. Einnig voru þátttakendur sammála um að nauðsynlegt væri að efla samstarf og samstöðu kvenna á heimsvísu. Það er sannarlega verk að vinna og konur þurfa að endurskipuleggja kvennabaráttuna í ljósi breyttra aðstæðna til að kveða feðraveldið í kútinn. 

Inngangur að málsstofunni sem ICEFEMIN (SDK) var með á ráðstenu WPLGF

Valdefling kvenna er óhemju áríðandi

NÚNA

Í heimsfaraldrinum, sem nú geysar, höfum við séð hvernig gömul og kunnugleg skrímsli hafa farið á kreik.

Við höfum séð karla efna til átaka, bæði nýrra og endurlífga gömul, í trausti þess að komast megi upp með slíkt þegar heimurinn er upptekinn við að berjast gegn veirunni, sem ógnar lífi okkar allra. Átökin í Nagorno-Karabakh eru dæmi um slík átök en þau eins og öll önnur átök ógna lífi kvenna og afkomu fjölskyldna þeirra.

Við höfum séð valdamenn vinna skemmdarverk á þeim lýðræðishugmyndum sem samfélög okkar byggja á. Í Hvíta Rússlandi krýnir Alexander Lukashenko sjálfan sig forseta eftir kosningar sem augljóslega var hagrætt honum í vil. Hann hlustar ekki á hávær mótmæli þjóðar sinnar, en þar fara konur fremstar í flokki, hann fangelsar mótmælendur og pyntar þá.

Við höfum séð hvernig réttindi, sem konur hafa barist fyrir í áravís, eru tekin frá þeim. Má þar nefna ný þungunarrofslög í Pólandi sem afnema mestallan rétt kvenna yfir líkama sínum og lífi. Yfirráð yfir líkama kvenna hafa alla tíð verið körlum mikilvægt stjórntæki því með því að hafa stjórn á frjósemi kvenna geta þeir stjórnað konum. Það hefur einmitt gerst í Pólandi.

Annað svipað dæmi er nýleg yfirlýsing 33 ríkja um vernd fóstra sem Bandaríkin höfðu frumkvæði að. Þessi yfirlýsing lítur á konur sem eins konar útungunarvélar en ekki sem félagslegar persónur. Ekki er að furða að þau ríki sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna séu ríki þar sem konur njóta ekki sömu réttinda og karlar eins og Sádi-Arabía, Póland, Ungverjaland og Austur Kongó þar sem konur óttast um líf sitt hvern dag vegna átaka og ofbeldis.

Frá Bandaríkjum Norður Ameríku, sem eitt sinn voru talin vera í forystu hins „frjálsa heims“, hefur borist stöðugur straumur af kvenfjandsamlegum áróðri og þá einkum frá forseta þeirra, Donald Trump. Orðræða hans undanfarin fjögur ár hefur eflt andrúmsloft eitraðrar karlmennsku og gefið valdamönnum annars staðar byr undir báða vængi til að gera slíkt hið sama.

Og jafnvel þótt Trump forseti hafi nú beðið lægri hlut í lýðræðislegum kosningum, og jafnvel þótt fyrsta konan í sögu Bandaríkjanna hafi nú verið kjörin til embættis varaforseta, má ekki gleyma að yfir 70 milljónir Ameríkumanna kusu Donald Trum til áframhaldandi setu á forsetastóli. Það er því viðbúið að Trumpismi með virðingarleysi sínu fyrir konum og réttindum þeirra sé ekki á förum.

Í heimsfaraldrinum höfum við séð hvernig konur hafa unnvörpum misst vinnuna og fjárhagslegt sjálfstæði sitt og hvernig þeim hefur verið beint aftur inn á heimilin til að annast börn sín og stunda heimilisstörf. Og, síðast en ekki síst, höfum við séð hvernig ofbeldi gegn konum hefur farið hríðvaxandi í þeim víðtæku samkomutakmörkunum sem settar hafa verið til að sporna við faraldrinum. Konur er því margar fastar heima fyrir og í því kvenfjandsamlega andrúmslofti sem skapast hefur virðist sem körlum þyki enn sjálfsagðara en ella að beita þær ofbeldi.

Við þessar aðstæður er óhemju áríðandi að valdefla konur svo þær geti látið í sér heyra sjálfum sér til varnar. Slík valdefling er nauðsyn. Auðvitað voru það líka konur sem greiddu Donald Trump atkvæði sitt, bæði í nýafstöðnum kosningum og fyrir fjórum árum. Og auvitað voru það líka konur sem greiddu atkvæði með nýju þungunarrofslögunum í pólska þinginu. Það er ekki líffræilegt kyn sem ákvarðar hvernig þessar konur vörðu atkvæði sínu, heldur kynbundnar og karllægar hugmyndir.

Allar konur eru mótaðar af karlveldinu[1], hugmyndum þess og gildum, því allar höfum við vaxið úr grasi í karlveldissamfélögum. Það er því ekki að undra að sumar konur verji atkvæði sínu eins og þær gera. Þar sem svo er og þar sem andrúmsloft eitraðrar karlmennsku hefur ýtt undir þessar hugmyndir er algjörlega nauðsynlegt að gera konum kleift að hugsa á skapandi hátt um stöðu sína, réttindi og líf út frá öðrum forsendum en þeim sem karlveldið leggur þeim til. Það er ekki auðvelt því þessar hugmyndir móta allt okkar líf og við mætum þeim hvarvetna í daglegu lífi.

Við verðum að átta okkur á að við þurfum ekki að stjórnast af þessum viðteknu karllægu hugmyndum og að hægt er að leggja gömlu gamalkunnu skrímslin að velli. Konur eru GERENDUR, þær geta hugsað stöðu sína upp á nýtt út frá sínum eigin forsendum og tekið til sinna ráða samkvæmt því. Með því að gera það geta konur breytt því hvernig fólk hugsar um konur og karla og þar með breytt samfélagi sínu.

Það er einmitt það sem íslenskar konur gerðu á níunda áratug síðustu aldar og buðu fram kvennalista í sveitarstjórna- og alþingiskosningum. Við náðum árangri og fengum konur kjörnar – á sínum eigin forsendum. Við vitum því að þetta er hægt. Við vitum líka að brautargengi kvennalistanna á sínum tíma var lykillinn að þeim breytingum sem urðu á hugmyndum Íslendinga um konur og stöðu þeirra og lagði grunnin að því að Ísland hefur í mörg undanfarin ár verið efst á lista World Economic Forum yfir jafnrétti kvenna og karla. Við höfum ekki enn náð ásættanlegu kynjajafnrétti á Íslandi en við vitum að karllægar og kvenfjandsamlegar hugmyndir eru ekki náttúrulögmál. Við getum breytt þeim.

ICEFEMIN, sem fer fyrir þessum fundi, var stofnað af konum sem hafa reynslu af því að færa hugmyndir kvenna um menningu og samfélag inn á miðju íslenskra stjórnmála og valdastofnanna. Það gerðum við með kvennalistunum. Það er aðferð sem er tiltæk öllum konum sem búa í lýðræðissamfélögum, hafa kosningarétt og njóta kjörgengis. Við í ICEFEMIN erum tilbúnar til að aðstoða konur hvar sem er til að koma á laggirnar slíkum kvennalistum eða skipuleggja og taka þátt í hvers konar viðburðum sem miða að valdeflingu kvenna. Við vitum hvað þarf að gera og hvernig, og hversu mikilvægt það er að hugmyndum kvenna byggðum á þeirra eigin reynslu sé beitt í öllum ákvarðanatökum sem varða samfélag þeirra.

Valdefling kvenna er alltaf óhemju mikilvæg en ef til vill aldrei eins áríðandi og einmitt NÚNA.


[1] Enska orðið patriarchy er hér þýtt sem karlveldi en ekki feðraveldi eins og venjan er. Það er vegna þess að allir karlar, en ekki bara feður, eiga aðild að karlveldinu, hugmyndum þess, reglum og venjum. Skiptir þá aldur eða þjóðfélagsstaða ekki máli. Þýðingin feðraveldi er hér því talin of þröng.