HVAÐ HÖFUM VIÐ FRAM AÐ FÆRA?

VIÐ BJÓÐUM

Markmið okkar er að styrkja konur, veita þeim innblástur og hvetja þær til að bæta eigin aðstæður og þróun samfélagsins í átt til aukins jafnréttis og sjálfbærni. Okkur finnst mikilvægt að deila reynslu okkar af því að stofna og reka nýja stjórnmálahreyfingu, Kvennalistann, og vera fulltrúar hans á þingi, í bæjar- og sveitarstjórnum og víðar. Við viljum segja söguna af því hvernig fáeinar konur ýttu úr vör fjöldahreyfingu kvenna. Þær náðu eyrum og athygli fólks sem leiddi til grundvallarbreytinga á samfélaginu. Þetta var ekki auðvelt en samstaðan, gleðin og orkan sem leystust úr læðingi leiddi til valdeflingar kvenna.

Það er ekki hægt að flytja út hugmyndafræði hreyfingar eins og Kvennalistans óbreytta til annarra landa. Það verður að aðlaga hana að samfélags- og menningarlegum aðstæðum á hverjum stað. Frumkvæði íslenskra kvenna sýnir að sameinaðar geta konur breytt eigin lífi og samfélagi.

Konur sem gegndu lykilhlutverki við stofnun og í störfum Kvennalistans og/eða voru fulltrúar hans vilja gjarnan deila reynslu sinni á eftirfarandi hátt:

ERINDI

Flytja erindi um íslenska kvennabaráttu og Kvennalistann, hvað þurfti til að stofna hann og hvaða lærdóma má draga af sögunni í þau 17 ár sem hann starfaði á Alþingi og í sveitarstjórnum um land allt. Í kjölfarið yrðu umræður um efnið og hvernig hreyfing eins og Kvennalistinn getur komið að gagni í viðkomandi landi.

NÁMSKEIÐ

Námskeið um femínisma og kvennabaráttu ásamt innleggi og umræðum um starfið og stöðuna á viðkomandi stað.

AÐSTOÐ

Bjóðum aðstoð við að greina stöðu kvenna á viðkomandi stað og hver séu samfélags-, efnahags- og menningarleg áhrif á hana.

RÁÐGJÖF & AÐSTOÐ

Ráðgjöf og aðstoð við að þróa aðferðir og leiðir til að styrkja kvennahreyfingar.

SAMVINNA

Stuðningur og samvinna við að skipuleggja ráðstefnur, aðgerðir, fundi, viðburði og vinnuhópa.

ICELANDIC FEMINIST INITIATIVE

UM OKKUR

Femínistar verða að standa saman og byggja heim réttlætis, jöfnuðar og friðar.

IceFemIn - Icelandic Feminist Initiative - samtök íslenskra kvenna stofnuð 2017 - sem munu beita sér í þágu kvenfrelsis, jafnréttis og jöfnuðar, hérlendis og erlendis. Í IceFemIn eru konur sem um árabil hafa unnið að kvenfrelsismálum og búa yfir mikilli reynslu á sviði stjórnmála, félagsmála og kynjarannsókna, einkum á vettvangi Kvennalistans. Það er ætlun félagskvenna að nýta þekkingu sína og reynslu til að leggja konum og femínistum lið í kvennabaráttunni, jafnframt því að veita íslenskum sem erlendum stjórnvöldum aðhald, koma á framfæri nýjum hugmyndum og kröfum um róttækar samfélagbreytingar.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er unnið að þróunarmarkmiðum til að bæta stöðu kvenna enda er hún lykillinn að betri og réttlátari heimi. Verkefnin eru ærin. Við okkur blasa valdamisvægi kynjanna, hernaðarátök með gríðarlegu mannfalli og flóttamannastraumi og náttúrunni er ógnað vegna ágengni. Fátækt, misrétti, kynbundið ofbeldi og hvers kyns valdníðsla blasir við. Þetta ástand á sér rætur í aldagömlum hugmyndum feðraveldisins, ekki síst þeirri hugmynd að körlum beri að deila og drottna yfir jörðinni og lífríki hennar. Konur og börn þjást vegna þessa rótgróna valdakerfis sem þarf að uppræta.

Víðs vegar starfa hreyfingar að valdeflingu kvenna, bættum kjörum þeirra og réttmætum áhrifum á mótun samfélagsins. Þær hafa komið með nýjar hugmyndir og aðferðir inn í kvenfrelsisumræðuna. Þrátt fyrir það komast konur víða um heim hvorki lönd né strönd vegna harðsnúins valdakerfis sem gefur konum takmarkað rými.

Þótt margt hafi áunnist í réttindabaráttu kvenna, ekki síst hér á landi, er langt í frá að markinu sé náð. IceFemIn telur að félagið geti lagt konum lið með því að fræða, ræða og sýna hvernig íslenskar konur hafa náð árangri. Staða jafnréttis hér á landi, sem mælst hefur einhver hin besta í heiminum, byggist fyrst og fremst á frumkvæði, baráttu, samstöðu og virkni kvennahreyfinga, ekki síst Kvennalistans meðan hann var og hét.

IceFemIn mun í starfi sínu bjóða upp á ráðgjöf, fyrirlestra, umræður, ráðstefnur og nýta sér samfélagsmiðla til að ná til kvenna og baráttufólks. Við verðum að snúa vörn í sókn, stöðva hernaðarhyggju og græðgi, snúa valdakerfum við þannig að þau vinni í þágu fólks og jarðarinnar í stað gróðahyggju, hagsmuna valdsmanna og hinna fáu sem eigna sér auðlindir jarðar. Femínismi er leið til breytinga. Femínistar verða að standa saman og byggja heim réttlætis, jöfnuðar og friðar.

KONURNAR

HVERJAR ERUM VIÐ?

Við erum konur sem höfum tekið virkan þátt í íslenskri kvennabaráttu um árabil. Við höfum sögu, þekkingu og reynslu að miðla til ykkar.

ÍSLENSKAR KONUR TAKA TIL SINNA RÁÐA

BAKGRUNNUR

Samstaða íslenskra kvenna og kvennafrí

Íslenskar konur sameinuðust þvert á pólitískar línur, stétt og stöðu árið 1975 með því að leggja niður störf á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október. Tilgangurinn var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir atvinnu- og efnahagslífið. Yfir 80% kvenna um allt land tóku þátt í aðgerðinni með þeim afleiðingum að hjól atvinnulífsins stöðvuðust þennan dag. Kvennafríið vakti heimsathygli og kom íslenskri kvennabaráttu á heimskortið. Ekki vakti síður athygli þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands í lýðræðislegum kosningum árið 1980, fyrst kvenna í heimnum. Sjónir voru að beinast að valdaleysi kvenna, nú varð að koma konum að þar sem ráðum var ráðið.

Kvennaframboð og Kvennalisti

Árið 1982 ákvað hópur kvenna að stofna nýja femíniska kvennahreyfingu og bjóða fram sérstakan kvennalista í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík og á Akureyri. Sagt var að konur yrðu að breyta heimnum, það myndi enginn gera það fyrir þær. Kvennaframboðin vöktu mikla athygli og leiddu til þess að konum fjölgaði á listum hefðbundnu flokkanna. Kvennaframboðin fengu tvo fulltrúar bæði á Akureyri og í Reykjavík. Ári síðar var boðinn fram kvennalisti til Alþingis í þremur kjördæmum. Þessar aðgerðir vöktu mikla athygli og höfðu varanleg áhrif á pólitíska sviðið í landinu. Þær leiddu til þess að Ísland þróaðist á skömmum tíma frá því að vera land mikils kynjamisréttis yfir í að verða í fremstu röð í heiminum. Í níu ár hefur Ísland verið efst á lista World Economic Forum hvað varðar kynjamun innan ríkja heims.

Konur í sveitarstjórnum og á Alþingi

Öldum saman höfðu karlar og karllæg gildi verið alls ráðandi í íslensku samfélagi. Raddir, kröfur og reynsla kvenna var einskis metin við stefnumótun og ákvarðanatöku og konur voru örfáar ef nokkrar þar sem ráðum var ráðið. Það var einfaldlega ekki hlustað á konur og ekki tekið tillit til hagsmuna þeirra og stöðu, hvorki á vinnumarkaði né í fjölskuldulífi. Kvennaframboðin sem hófu göngu sína (að nýju) árið 1982 höfðu það meginmarkmið að komast að hátölurunum til að kröfur kvenna heyrðust og tekið yrði tillit til reynslu þeirra og gildismats. Sú aðgerð að bjóða fram til Alþingis 1983 hafði mikil áhrif á íslensk stjórnmál. Konum fjölgaði mikið bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi og ýmis baráttumál kvenna komust á dagskrá. Árið 1982 voru konur 6% sveitarstjórnarmanna og 5% alþingismanna. Árið 1999 þegar setu kjörinna kvennalistakvenna lauk á Alþingi var hlutur kvenna komnn upp í 28% í sveitarstjórnum og 35% á Alþingi. Hann átti enn eftir að aukast mikið.

Konur komast að hátölurunum

Árangur Kvennalistans beindi athygli aðmikilvægum baráttumálum kvenna og breytti aldagömlum viðhorfum til kvenna og samfélagslegrar stöðu þeirra. Reynsluheimur kvenna var dreginn fram í dagsljósið og áhersla lögð á að mannréttindi kvenna, svo sem frelsi til tjáningar og aðgerða myndu verða samfélaginu öllu til góðs. Kvennalistinn var frumlegur og kom með byltingarkenndar hugmyndir, hvatti konur til dáða og setti af stað bylgju sem fæddi af sér margvísleg samtök kvenna. Kvennalistinn veitti stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum femíniskt aðhald sem leiddi til þess að smám saman voru tillögur og hugmyndir teknar upp af öðrum pólitískum hreyfingum. Gott dæmi um það er t.d. lenging fæðingarorlofs kvenna og sérstakt fæðingarorlof feðra. Kvennalistinn kom eins og hressandi stormsveipur inn í íslensk stjórnmál, sveiflaði pilsum og ögraði valdakerfinu. Hann gerði konur sýnilegar og háværar á pólitíska sviðinu sem leiddi til mikilvægra breytinga. Sá árangur sem náðst hefur er afrakstur þrotlausrar baráttu kvennahreyfinga í áratugi. Enn er þó mikið verk að vinna til að jafna stöðu kynjanna og breyta ríkjandi gildum feðraveldisins í átt að virðingu, jöfnuði, sjálfbærni og friði.

Árangur

Á þeim 17 árum (1982-1999) sem Kvennaframboð og Kvennalisti áttu sæti í sveitarstjórnum og á þingi náðist mikill árangur í baráttumálum framboðanna. Þeim tókst að koma stefnumálum sínum af jaðrinum og inn á miðjuna. Þær gjörbreyttu umræðunni varanlega og komu málum á dagskrá sem höfðu legið í þagnargildi á Alþingi og í samfélaginu. Má þar nefna klám, kynferðislegt ofbeldi sem og annað ofbeldi gegn konum og börnum. Kvennaframboðið átti frumkvæði að því að Kvennaathvarf var stofnað 1982 og Kvennalisti átti þátt í stofnun Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota. Kvennalistinn var fyrsta pólitíska aflið sem studdi mannréttindabaráttu samkynhneigðra meðal annars með sérstökum kafla í stefnuskrá um réttindi þeirra. Flutt voru frumvörp um lengingu fæðingarorlofs kvenna sem og sérstakt fæðingarorlof fyrir karla. Einnig voru fluttar tillögur um dagvistar- og skólamál. Konurnar voru friðarsinnar, vildu leggja niður hernaðarbandalög, draga úr kjarnorkuvígbúnaði og auka friðarfræðslu. Umhverfis- og náttúruverndarmál skipuðu mikilvægan sess og þingkonur Kvennalistans fluttu meðal annars fyrsta frumvarpið um stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis. Þær vöktu athygli á möguleikum ferðaþjónustu sem framtíðaratvinnugreinar og fluttu tillögur um úrbætur á ferðamannastöðum í því skyni að vernda náttúruna og tryggja sjálfbærni. Þær voru á móti stóriðju, litu á hana sem gamaldags og úreltan atvinnukost sem valdi mengun og spilli náttúrunni. Þær mótuðu tillögur um stjórn fiskveiða sem var ætlað að tryggja raunverulegan eignarrétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins og stuðla að meira atvinnuöryggi fiskvinnslufólks, aðallega kvenna, í heimabyggð. Þær hugðust ná þessum markmiðum með því að tengja úthlutun fiskveiðikvóta við byggðarlög eftir ákveðnum reglum, fyrir ákveðið gjald. Hlutfall kvenna í borgarstjórn fór úr 20% í 53,3%, á þremur kjörtímabilum Kvennaframboðs og Kvennalista (1982-1994), og konum fjölgaði úr þremur í átta af 15 fulltrúum. Á landsvísu rúmlega þrefaldaðist hlutfall kvenna í sveitarstjórnum fór úr 6% í 25%. Hlutfall kvenna á Alþingi rúmlega fjórfaldaðist. Fór úr 5%, þegar Kvennalistinn bauð fram 1983, í 25% þegar Kvennalistinn bauð fram í síðasta skipti 1995. Fjöldi þingkvenna fór á sama tíma úr 3 í 16.

BLOGG

FRÉTTIR

STAÐSETNING

Reykjavík, Ísland

TÖLVUPÓSTUR

SÍMI

(+354) 864 0493

HAFÐU SAMBAND